LIST Bryndís Bolladóttir listakona sér um listskreytingar í nýju húsi Framhaldsskóla Mosfellsbæjar. Bryndís hefur sérhæft sig í innsetningum til að dreifa og dempa hljóð með veggverkum úr þæfðri ull.
Nýtt húsnæði Framhaldsskólans í Mosfellsbæ var vígt síðastliðinn föstudag. Litríkar og nýstárlegar veggskreytingar Bryndísar Bolladóttur eru áberandi í skólanum.
Bryndís varð hlutskörpust í lokaðri samkeppni um listskreytingu skólans sem haldin var árið 2011 og hefur unnið að verkefninu síðan. „Arkitektar skólans voru mjög sniðugir. Þau Aðalheiður Atla- dóttir & Falk Krüger hjá a2 arkitektum vildu ekki aðeins að listamaðurinn kæmi með listaverk inn í skólann heldur ætti hann að ákveða litakortið fyrir húsnæðið allt,“ segir Bryndís, en litapallettan sem hún valdi er gegnumgangandi bæði í gleri utan á skólanum, í húsgögnum og verkum Bryndísar.
Bryndís segir strúktúr skólans nátengdan nátt- úrunni en helstu efnin eru gróft tréverk og stein- steypa. „Hugmyndafræði skólans er afar góð og snýst um að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og endurnýtingu. Ég fékk fín gögn í hendurnar í upphafi þar sem ég las hugmyndafræði arkitektanna og lagði út frá henni í minni vinnu,“ segir Bryndís en hugmyndir hennar snerust um hringrás. „Ég sá fyrir mér biðukollu af fífu sem svífur um loftið og lendir hér og þar,“ segir Bryndís sem valdi liti út frá náttúrunni, til dæmis sóleyjargulan, himinbláan og grasgrænan.
HAGNÝT LIST
Listskreytingar Bryndísar eru ekki aðeins fyrir augað heldur þjóna þær einnig hagnýtum hljóðvistfræðilegum tilgangi. Hún hefur í mörg ár unnið með hljóðverkfræðingum og Nýsköpunarmiðstöð við að skapa veggverk úr þæfðri ull til að deyfa og dempa hljóð. Verk hennar hafa vottun upp á að hljóðvist þeirra sé í A-flokki sem verður vart betra. Íslenska ullin virðist henta sérlega vel í hljóðvist þar sem hljóðið bylgjast óreglulega inn í langa þræði hennar.
Eitt af verkefnum Bryndísar var að hanna gólf í skólann. „Ég hannaði gólf úr endurunnum bjórflöskum en ekki fékkst vottun til að setja það í opinbera byggingu,“ segir Bryndís. Þess í stað var ákveðið að nota verk hennar víðar í skólanum en einungis í matsalnum eins og upphaflega var ætlunin. Verk hennar er nú að finna í matsalnum, nokkrum skólastofum, fundarherbergi og kennara- herbergi. „Ekkert rými er eins og hvert hefur sitt séreinkenni,“ segir Bryndís sem vann hvert verk út frá rýminu sem það var ætlað í.
■ solveig@365.is